Vatnið og skógurinn

Í 50 ára afmælisriti Árbókar Ferðafélags Íslands árið 1977 er grein eftir Svein Skorra Höskuldsson (1930-2002) frá Vatnshorni sem ber heitið Vatnið og skógurinn.

Greinin hefst á tilvitnun í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á orðum Ovidiusar: Römm er sú taug, er rekka dregur föður-túna til og segir Sveinn Skorri að „sannindi þeirra mun margur staðreyna því betur sem hann lifir lengur.“ Greinin fjallar um æskuslóðir Sveins Skorra í Vatnshorni, en þangað kom hann 3 ára gamall vorið 1933.
Hér fer á eftir meginefni greinarinnar:

Þótt nútímamenn hampi ekki ættjarðarást og átthagatryggð í jafnháfleygum orðum og títt var á fyrri öld munu engu síður á okkar tíð enn liggja þeir þræðir milli manns og móðurmoldar, er trauðla verða rofnir.
Þær slóðir, þar sem menn slíta barnsskónum, verða flestum nákomnari en aðrir staðir. Ómeðvitað renna þær inn í líf manna og verða með nokkrum hætti hluti af þeim sjálfum. Ef þar við bætist að skyldmenni og ætt hafa um langan aldur búið í sömu sveitum verða tengsl mannsins við ættbyggð sína órjúfanlega bundin sögu lífs, sem honum er kært og vanda bundið.

Mér er engin launung á því að ég þykist hafa séð lönd og bygðir er bæði að glæsileik hins stórfenglega og auðlegð his smágjörva og unaðslega bera af þeim tveimur landssvæðum, sem mér eru kærust: byggðarlögum Þingeyjarþings og Borgarfjarðardölum.

Margur mun með miklum rétti geta staðhæft að landslagið í þessum sveitum sé síður en svo tilkomumikið: einatt ávalir hálsar og heiðar, ekki alltjent víðsýni, stórfengileikur og tign fremur bundin við einstaka staði en svæðin í heild sinni. Hitt er það að um gnægðir unaðslegs gróðurs munu fá héruð skáka þingeyskum lyngheiðum né heldur eiga margar sveitir dulúð og þokka borgfirskra skóga og fiskivatna, streymandi og stöðugra.
Hugarþel mitt til þessara sveita er þó ekki bundið landi þeirra einu og þeim unaði og gleði ellegar ógn, sem það má vekja, heldur engu síður lífi manna og dýra, sem þar hafa fæðst, notið, þjáðst og dáið. Í þessum sveitum hafa forfeður mínir og flestir ættingjar háð sitt lífsstríð, notið sinnar hamingju, borið sínar sorgir, unnið sína sigra, tekið sínum ósigrum. Þeir hafa fæðst inn í þessar sveitir og dáið inn í þær aftur. Frá barnæsku hef ég heyrt sagnir af lífi þeirra, órjúfanlega tengdu þessum dölum, tengdu húsdýrunum, sem lifðu á þessum grundum, bitu grasið í þessum brekkum, sem smalað var af þessum heiðum og hálsum.
Blóð og jörð, sögðu þýskir og þótti heldur fátækleg heimspeki. Mér dylst ekki að tilfinningar mínar til þessara sveita eru órjúfanlega tengdar blóðböndum. Þær eru hluti af sjáfsvirðingu minni, ekki síður – og þó fremur – en það er þáttur í sjálfsvirðingu hvers manns að minnkast ekki fyrir þjóðerni sitt.

Á uppvaxtarárum mínum í Skorradal fóru allar samgöngur þar fram á hestbaki, bæði mannaferðir og vöruflutningar. Bifreiðar gengu að vísu um niðurdalinn yfir Geldingadraga og Hestháls en í framdalnum voru vegir þær einar götur þröngvar, er hófar hesta höfðu um aldir troðið í svörð skógi vaxinna hlíða eða eftir eyrum fram með vatninu. Bifreiðar komu ekki í fram-Skorradal fyrr en á árum heimsstyrjaldarinnar síðari að þar nauðlenti bandarísk herflugvél, sem eigendurnir brutust eftir á trukkum.1

Þessar aðstæður höfðu það í för með sér að börn og unglingar, sem ólust upp í fram-Skorradal á kreppuárunum, gerðu fæst víðreist um þær mundir. Í rauninni kynntist ég aldrei náið niðurdalnum eða niðurdælingum. Við í framdalnum höfðum miklu fremur samband við lunddæli. Á þremur af fimm heimilum framan við vatn voru húsráðendur uppvaxnir í Lundarreykjadal, sumir voru í ungmennafélagi lunddæla og öll heimili framan vatns voru í lestrarfélagi ásamt lunddælingum. Ef til vill eimdi hér líka eitthvað eftir af því að Lundar- og Fitjasóknir voru sérstakt prestakall áður en þær voru lagðar undir Hestþing ásamt Bæjar- og Hvanneyrarsóknum.

Þegar ég nú á fullorðins árum kem í Skorradal sé ég að niðurdalurinn er framdalnum búsældarlegri og landslag tilkomumeira, þar sem dalurinn skerst upp frá Andakíl syðstur Borgarfjarðardala norðan Skarðsheiðar, sem gnæfir yfir sviðið með hvítum fönnum, tignarlegum gnípum og miklu litskrúði líparíts, en á hina hönd ávalur Hestsháls, kjarri vaxinn upp á brúnir, en allt þetta landslag speglar sig í djúpi vatnsins.
Þessum hluta dalsins hef ég þó aldrei kynnst af langri reynslu nálægðar og mun aldrei kynnast.

Ef ég þekki hins vegar eitthvert landslag, þá er það Skorradalur framan Geldingadraga og Dagverðarness. Ég man enn hvernig ljósið fellur þar á skuggsjá vatnsins og hlíðar skógarins á hverjum tíma, þekki hvernig golan stendur þar af hverri átt, þekki morgunroðann við Skúlafell og kvöldroðann við Dagverðarnes, man hvernig dalalæðan lyppast í hlíðum í logni eða vatnið faldar hvítu í norðanstormi; en þótt ég þekki ilminn í sólvermdum brekkum Háafells- og Fitjahlíða og hafi horft á Snæfellsjökul í kristalstæru morgunlofti og sólskini af hlaðinu í Haga, þá þekki ég samt satt að segja aðeins þann hluta fram-Skorradals náið, sem er landareignin í Vatnshorni og þó nánar til tekið Vatnshornshlíðina með skógi sínum og vatnið fram undan henni. Þar skal nú dvalið um stund.

vatnid-og-skogurinn-1
Flutt í Vatnshorn: Sigríður og Bjarni ásamt Sólveigu dóttur sinni með Svein Skorra.

Ég man enn er ég kom fyrst að Vatnshorni þriggja ára gamall vorið 1933. Að baki var þriggja daga ferð með Gamla-Ford norðan úr Ljósavatnsskarði suður að Grund í Skorradal, þar sem við gistum. Á fjórða degi riðum við fram dalinn í blanka logni, sólskini og miklum hita, sem gjarna verður í þessum dal í slíku veðri. Vatnið var vafalaust blátt og skógurinn grænn, þó að ég muni það ekki, en mér þótti mýbitið hvimleitt þar sem ég sat á hnakkkúlunni framan við afa minn, er reiddi mig á leiðarenda. Gleggst úr þessum fyrsta reiðtúr mínum eftir Skorradal man ég það er við komum að túngarðinum í Vatnshorni að upp með honum að vestan, þar sem Stöðulgilið fellur, siluðust þrjár kýr; ein svört, önnur grá, sú þriðja hvít og miklu stærri en hinar. Á eftir þeim og afkomendum þeirra átti ég flest spor æsku minnar um skóginn með fram vatninu.

Bærinn í Vatnshorni í Skorradal stendur sunnan Fitjaár nokkurn spöl framan við suðausturhorn vatnsins, sem fyllir endilangan dalinn hlíða á milli svo að undirlendi er þar ekkert nema við báða enda þess. Landareignin er stór. Fremri-merkin eru örskammt austan vð túnið á svonefndum Lambabyrgisás. Síðan á jörðin land suður í Selflóa við botn Grafardals og mestallan hálsinn því að landamerkin við Grafardal liggja nærri suðurbrún og að utanverðu eru þau í Hvannagili, en þaðan heim að bæ var klukkustundar gangur.

Ekki hafði ég lengi dvalist í Vatnshorni, er mér þótti það einhver merkasti staður á jarðríki. Ég var áreiðanlega ekki orðinn læs er ég vissi það, sem máli skipti, um nafnfrægasta ábúanda jarðarinnar, þann grimmilega vígamann og garp Helga Harðbeinsson. Í útnorðri lokaðist dalurinn af Dagverðarnesi. Þar var amma mín fædd og þar taldi hún Dalamenn hafa etið dögurð áður en þeir fóru að Vatnshornsbónda, hvað sem leið frásögn Laxdælu. Í austri blasti Sarpur við, þar sem Helgi hafði haft í seli, og nokkru utan við túnið þar var Sátugilið, þar sem vegendur Helga höfðu setið í litklæðum sínum. Ég sá þá glöggt fyrir mér hvern og einn og vissi upp á hár um slakkann, þar sem þeir höfðu setið.2

Svo hugfanginn var ég af þessum fornaldarbónda í Vatnshorni að þegar ég eitt sinn á hæsta hóli túnsins, sem bar hið vígalega nafn Kastali, fann jaxl úr stórgrip, sem þangað hafði víst borist úr ösku með hrossataði eða kúamykju og var heldur blakkur og forneskjulegur, þá var ég sannfærður um að hafa fundið tönn úr hetjunni og bar gripinn heim til að sýna ömmu minni, sem ekki var laus við fornleifaáhuga.

Þá voru ekki amalegar sögurnar af Herði og köppum hans í Harðarhólma (í uppvexti mínum í Skorradal var hólmi þessi aldrei nefndur Gerishólmur). Vel sá ég fyrir mér er ræningjarnrir höfðu komið að Vatnshorni til þess að stela gripum úr fjósi. Ekki hvarflaði annað að mér en það væri sama hlaðan og enn stóð, þar sem fjósamenn bónda höfðu teflt uppi á heystáli meðan nautin voru leyst af básunum. Ég sá fyrir mér, hvar þeir höfðu látið fara vel um sig á heystabba í vesturenda hlöðunnar meðan Botnverjar athöfnuðu sig í fjósinu.3

Ekki þekkti ég þann skorrdæling sem það hvarflaði að á þessum tíma að draga sannleiksgildi þessara sagna í efa, og ég held að lífið hafi verið auðugra í þessum sóknum fyrir bragðið. Nú áratugum síðar finnst mér söguskynjun bernsku minnar hafi með allri fantasíu sinni farið nærri lagi.

Mannlífið í Skorradal á þessum árum var fremur samtíða Helga Harðbeinssyni, Herði Grímkelssyni og Helgu Haraldsdóttur en Adolf Hitler, Benito Mussolini eða Gretu Garbo. Ætli helsta tækninýjungin frá dögum Helga hafi ekki verið sú að faðir minn festi ljáinn við orfið með járnhólkum. Þegar ég man fyrst eftir mátti hjólið heita nær óþekkt tækniundur í fram-Skorradal. Fitjabærður4 fluttu áburð á tún í hripum, faðir minn á sleða á vetrum, enda upp alinn við sleðaferðir þingeyinga. Fram til þess tíma að Eggert í Bakkakoti lánaði föður mínum kerru var kringla sólarinnar það hjól, sem við höfðum eitt fyrir augunum, þar sem hún hellti geislum sínum yfir þessa saklausu sveit, er stóð kyrr í elífðinni.

Strax og ég hafði aldur til varð það embætti mitt að víkja kúm á haga en þær gengu á beit í skógarhlíðinni liðlangt sumarið, síðan að sækja þær aftur á kvöldin, og gat það á stundum orðið meira vandaverk því að kusur voru útmetnar með að leynast í skóginum. Man ég að fyrsta vorið, þegar ég var fimm ára, þótti mér kúareksturinn mikil háskaraun, því að ég var hræddur við hrúta og þóttist sjá fylkingar þessara stórhyrndu skepna á hverjum hóli.

Frá bænum í Vatnshorni út að skóginum er nærri stundarfjórðungsgangur, þó lengri þegar haldið var í upphafinni ró með kýr og kálfa á sólfáðum sumarmorgnum. Ef veður var grátt og fúlt pískaði smalinn hjörðina áfram á hraðari takti. Þessum starfa hélt ég, uns ég taldist vaxinn upp úr honum og yngri systkin erfðu embættið, en þá tóku við sauðfjársmalanir í þessari sömu hlíð vor og haust og fram á vetur.

Ég þekki því Vatnshornsskóginn betur en nokkurn annan blett á jörðinni, hef reynt hann á eigin skrokk, skynjað hann með öllum skilningarvitum.

Líkt og heita má að hver hóll og lægð í Vatnshornstúni, sem og hvert holt og melur, brekka og nes í næsta nágrenni, beri sitt nafn, sum slungin dul og óhugnaði þjóðsögunnar, þá er skógurinn í Vatnshornshlíð sundur stikaður örnefnum, og ber mest á nöfnum þeirra tungna, er verða milli hinna fjölmörgu gilja í hlíðinni, en hálsinum hallar öllum til Skorradals og því fellur vatnsmegnið þangað.

Rétt innan við skóginn gengur töluverð eyri fram í vatnið og heitir Ytri-Stekkjareyri. Á henni voru gamlar stekkjarrústir. Upp af eyrinni austanvert liggja gróin móabörð, sem Stekkjarbörð nefnast. Fast vestan við stekkjarrústirnar fellur Ytra-Stekkjargilið, töluvert vatnsmikið, og vestan þess liggur Mjóatunga, rimi milli gilja. Hún er skóglaus nema neðst, en vestan hennar tekur við samfelldur skógur út að landamerkjum Vatnshorns og Haga og nær hann upp undir brún hálsins.

Hinar ýmsu tungur milli gilja hlíðarinnar eru flestar kenndar við jarðir, einatt kirkjustaði, sem þar áttu ítök í skóginn til höggs. Má heita að skógurinn allur hafi verið skiptur upp í ítök. Þegar ég var að alast upp í Vatnshorni voru þó öll þessi ítök fallin undir jörðina nema ítak Efstabæjar, sem féll niður á uppvaxtarárum mínum. Fyrir því hef ég all-góðar heimildir að þegar langafi minn, Björn Eyvindsson, fluttist að Vatnshorni um miðja 19. öld hafi skógurinn verið orðinn mjög rýr og illa farinn af miklu höggi til kolagerðar. Á mínum uppvaxtarárum hafði hann náð sér og var þá, og er að ég hygg enn, stórvaxnast skógarsvæði í Skorradal.

Innsta tunga skógarins bar á mínum æskuárum ekkert nafn, hvort sem það merkir að þar hafi aldrei ítak verið. Þangað voru kýrnar reknar. Þar var skógurinn einna smávaxnastur en víða þétt kjarr og ógreiðfært. Yst í þessari tungu gengur lítið nef fram í vatnið og kallast Skógarnefið. Utan þess fellur í vatnið gil, sem skerst niður brúnina austan hnúks, sem þar er hæstur og heitir Lundartunguhnúkur. Niður af honum og vestan gilsins heitir Lundartunga, kennd við kirkjustaðinn Lund í Lundarreykjadal. Lundartungan nær að litlu gili eða læk, sem fellur niður vestan Lundartunguhnúks, en utan þess tekur við Litlatunga, og mun skógarhögg þar jafnan hafa heyrt undir Vatnshorn. Annað nafn á Lundartungu er Innri-Kirkjutunga, en vestan Litlutungu tekur við Kirkjutunga eða Ytri-Kirkjutunga, kennd við Fitjakirkju í Skorradal, sem þar mun hafa átt ítak. Kirkjutunga nær vestur að Klausturskógargili, en það er einna vatnsmest í allri hlíðinni og fellur í fossum niður á Klausturskógar-eyri, sem er aðaleyrin við vatnið miðja vegu milli bæjar og Ytri-Merkja. Vestan þessa gils tekur við langbreiðasta tunga hlíðarinnar, og heitir þar Klausturskógur, kenndur við Viðeyjarklaustur, sem þar átti og nytjaði skóginn. Þarna var hann einna hæstur og beinvaxnastur í mínum uppvexti. Man ég að þangað sótti faðir minn tíðum við, er hann vildi afla girðingarstaura eða rafta í þekjur. Vestast á Klausturskógareyrinni er melhóll nokkur og heitir Sauðhúshóll. Á honum voru rústir sauðahúss, en í skógarbrúinni beint upp af voru rústir beitarhúsa, sem höfðu enn verið notuð á búskaparárum afa míns. Upp af beitarhúsunum á hálsinum er Hrossasteinaflóinn, alllgrösugt flæmi. Þar hafði verið heyjað til beitarhúsanna áður fyrr. Vestan Klausturskógar tekur við Efstabæjartunga milli tveggja gilja allvatnsmikilla, er nefnast Innra- og Ytra-Efstabæjartungugil. Þessi tunga mun áður hafa heitið Háafellstunga, en Efstabæjarbændur hjuggu þar skóg til eldiviðar á mínum uppvaxtarárum.

Allt út fyrir Efstabæjartungu lá reiðgatan neðan skógar fram með vatninu. Var þar víða stórgrýtt en annars staðar farið eftir lausum vatnsmalarhryggjum, sem ýst höfðu upp undan ísi á vetrum. Þegar kom vestur fyrir þessa tungu skiptust göturnar, og var unnt að fara Neðrigötur með fram vatninu eða Efrigötur uppi í skóginum á þurrum melhólum, nokkuð sléttum ofan og kjarri vöxnum, sem liggja með vatninu langleiðina út að Merkjum. Ytra-Efstabæjartungugil fellur niður hlíðina rétt austan við klettahnúk, sem hæstur og ábærilegastur skagar fram á brúninni í vestanverðu Vatnshornslandi, og heitir þar Innri-Festi, en Ytri-Festi, öllu hærri og tilkomumeiri, er hnúkur austarlega í landi Haga. Framan í Innri-Festinni var reisluleg varða, sem nefndist Rauðavarða af rauðum steinum, er í henni voru. Hana hafði Björn í Grafarholti5 hlaðið á sínum smalaárum í Vatnshorni.

Hlíðin niður undan Innri-Festi er á köflum allbrött, en hvergi voru trjábolir yfirleitt jafnsverir og þar þó að trén væru ekki að sama skapi beinvaxin, enda lágu mörg þeirra höll undan snjóþyngslum í brattanum. Á þessu svæði heita Hvammstungur og munu hafa verið tvær. Þær ná að Innra-Skorrhólsgili, sem fellur niður hlíðina vestan í Innri-Festinni, en vestan þess að Ytra-Skorrhólsgili heitir Reynivallatunga, kennd við kirkjustaðinn Reynivelli í Kjós. Neðst og vestast í þessari tungu niðri við vatnið rís allmikill melhóll, vaxinn ákaflega þéttu og illfæru kjarri. Heitir hann Skorrhóll og þótti stundum óhreint á götunni neðan við hólinn. Það var allra trú í Vatnshorni í minni bernsku að á hóli þessum hefði Skorri þræll, er dalinn nam, verið drepinn.

Í æsku hafði ég nokkuð blandnar tilfinningar til þess nafns, er ég bar. Mér leiddist að heita nafni, sem enginn annar hét svo að ég vissi. Á hinn bóginn fann ég tíðum til undarlega seiðmagnaðra tengsla við þennan nafna, sem ég trúði að látið hefði líf sitt á þessum hóli. Mér þótti jafnvel að vegna nafnsins ætti ég meira í hólnum en aðrir menn og meira að segja að sveitin með þessu nafni væri mér tengdari en öðru fólki. Ég held að Bjarni afi minn í Vatnshorni hafi verið nokkuð ánægður með það uppátæki dóttur sinnar að láta skíra mig þessu nafni og ég man enn hneykslan hans og reiði er honum barst í stríðsbyrjun bréf frá bróður sínum, Birni í Grafarholti, sem þar fór fram þeirri kenningu að nöfnin Skorradalur og Skorrhóll væru alls ekki af nafni Skorra dregin, heldur hétu hólarnir allir, sem Efrigötur lágu eftir, Skorhólar og væru kenndir við skorninga og hvilftir, sem í þá væru.

Mér þótti reyndar líka sem nafn mitt setti heldur niður við þessa náttúrunafna-kenningu Björns í Grafarholti og þarf ekki að taka fram að við frændur hans í Vatnshorni létum ekki vísindahyggju hans hafa minnstu áhrif á hugmyndir okkar, enda höfðu hestar okkar ósjaldan orðið staðir í myrkri fram undan hólnum þar sem andi landnámsmannsins reikaði um skóginn. Fram í vatnið vestan Skorrhólsins gengur allmikil slétt eyri, vaxin þéttum harðvellisgróðri og stoltum snarrótarpunti. Nefnist hún Skorrhólseyri. Hún var girt og var heyjað þar annað hvert ár. Þar var meiri ilmur úr grasi en af öðrum slægjum og var smágert töðugresið gjarna gefið lömbum.

Vestasta tungan í skóginum upp af Skorrhólseyrinni og út að Hvannagili nefnist Meðalfellstunga, kennd við Meðalfell í Kjós. Þar er landslag tilbreytingarmeira en í öðrum hlutum skógarins, einlægir hólar og hvilftir og ásar upp alla hlíðina, en niður í miðja tunguna fellur lítið gil, sem skásker hana til austurs og sameinast Ytra-Skorrhólsgili um miðja brekkuna. Hvannagilið á Merkjunum er langhrikalegast allra gilja í Vatnshornshlíð. Það fellur mestalla brekkuna í töluverðu gljúfri og getur orðið vatnsmikið í leysingum. Í gljúfrinu áttu smyrlar jafnan hreiður og þar uxu feikn af burnirót.

Skógurinn og vatnið voru þau gæði landsins, sem óbrigðulust voru í Skorradal.
Flestar jarðir voru engjalitlar. Þetta voru sauðfjárbýli og beitarkot. En skógurinn hafði um aldir þénað til eldsneytis, kolagerðar og öflunar raftviðar, og á mínum uppvaxtarárum var hann nytjaður til eldiviðar og í girðingarstaura. Það stælti krafta og þrek að höggva viðinn, binda hann í klyfjar og lyfta til klakks, en verkið var erfitt og ekki síður hestunum, sem fluttu þungar drögur viðarklyfja niður bratta hlíðina gegnum ógreiðfæran skóginn. Alla æsku mína fannst mér það jafn-spennandi og ævintýralegt karlmannsverk að fara í skóginn til viðarhöggs og sjón að sjá lest hesta með grænar drögur af laufguðum trjám. Ekkert var jafngóð uppkveikja og þurrt, laufgað hrís.

Þó þótti mér enn tilkomumeira þegar vatnið lá á ísi á vetrum að fara með föður mínum, sjá hann hlaða mörgum hestburðum í himinhátt æki á sleða, sem einn hestur dró léttilega eftir vatninu og ánni heim í hlað. Í þá daga var óbrotin hamingja lífsins fólgin í því að liggja á dúandi hrískesti í frostkælu undir vetrahimni og hlusta á gnesti íssins við taktfast fótatak skaflajárnaðra hófa.

Skorradalsvatn á ísi var dæmalaus leikvöllur. Venjulega lagði vatnið ekki nema í logni svo að það var sem spegill enda á mili í dalnum, en auðvitað gat ísinn síðan spillst af sjókomu eða leysingum. Flesta vetur lá vatnið á hestfærum ísi frá áramótum til vorleysinga. Í þessari veglausu sveit var það dýrleg tilfinning að geta hlaupið á skautum eftir fáðum ísnum kílómetra eftir kílómetra. Þó var meiri hefðarbragur á því að beita hesti fyrir sleða og aka vel dúðaður í vetrarfrosti eins og kósakki í rússneskum róman, ellegar að ríða viljugum vel bryddum hesti og heyra skaflatökin bergmála í hrímguðum skógarhlíðum.

Aldrei var jafn-hljóðbært í Skorradal og þegar vatnið hafði lagt. Þá hljóðnuðu skvaldur lækjanna, fossar giljanna og eilífur niður öldunnar, sem á öðrum árstímum fylla dalinn sérkennilegri, samhljóma vatnsmúsík, þeirri tónlist sem sjálf uppspretta lífsins flytur börnum þessarar sveitar.

Hlíðar fram-Skorradals eru ávalar og skálarmyndaðar og þegar ís vatnsins hefur myndað hljómbotn bergmálar hvert minnsta hljóð brekkna á milli. Stundum hefur mér dottið í hug hvernig Finlandia, þessi þjóðernisinnblásni lofsögngur til myrkra skóga og djúpra vatna, myndi hljóma frá stórri hljómsveit þarna á ísnum. Þegar ísinn þykknaði og frostsprungur tóku að myndast kváðu brestirnir við eins og fallbyssuskot og minntu á dauða og tortímingu þess hildarleiks sem geisaði fjarri þessari friðsælu sveit í mínum uppvexti á árum heimsstyrjaldarinnar síðari.

Sennilega bjó ekkert náttúrufyrirbæri í Skorradal yfir þvílíkri seiðblandinni dulúð sem vatnið. Það var kalt og djúpt. Þegar ísinn var tær og gegnsær var betur unnt að svala forvitni sinni um undirdjúpin en þegar flöturinn var kvikur og lifandi á sumrin. Hægt var að sjá hvernig dýpið smájókst á leirunum út frá mynni Fitjaár, þar sem botninn var hulinn sallafínum, brúnum leir, er lá í örsmáum öldulaga hryggjum. Svo tók við marhálmsskógur, sem dúði og sveigðist fyrir óþekktum straumum steinhljóður í djúpinu. Síðan rann brúni liturinn yfir í blátt og kolmyrk undirdjúpin tóku við lengra en augað eygði. Vatnið var í senn gjafari þess lífs, sem lifað var í Skorradal, og dularfullur vettvangur dauðans og hins óþekkta. Í djúpi þess leyndust bein manna, er það hafði hirt og ekki skilað aftur. Í bernsku minni kváðu mér enn í eyrum neyðaróp Leifs þess, sem ég hafði heyrt frá sagt að farið hafði frá Vatnshorni á búskaparárum afa míns og ömmu og horfið niður um fárra nátta ís fram undan Háafelli.

Í djúpi vatnsins bjó líka mestur ormur síðan á dögum Adams og Evu. Í fyrndinni hafði heimasæta í Hvammi lagt fingurgull í traföskjur og þar hjá brekkusnigil. Hann tók strax að vaxa óhugnanlega og varð stúlkan gripin skelfingu, kastaði öskjunum með gulli og snigli í vatnið. Þar hélt hann nú áfram að vaxa. Þegar að því kæmi að hann skyti kryppunni svo hátt úr vatninu að sjá mætti Dragafellið undir bug hennar var skammt til heimsendis. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds við þessa frásögn ömmu minnar. Hún róaði mig að vísu með því að hvorugt okkar myndi lifa það að geta skoðað brúnir dalsins undir kvið þessarar voðalegu skepnu, en í hljóði hugans þótti mér trúlegt að ég myndi síðar á ævi sjá glytta í ormshrygginn ofanverðan.

Ekki var vatnið almennt nytjað til veiðiskapar á vetrum í mínum uppvexti. Þó minnist ég þess að Fitjabræður fóru einstaka sinnum á dorg. Á þeim dögum hafði ég ekki krafta eða lag til að höggva vakir á ísinn en sætti lagi að fara með færisstubb minn í vakir þeirra bræðra á eftir þeim. Þeim mun ákafar stundaði faðir minn netjaveiði á sumrum. Þá kynntist ég djúpi þess með öðrum hætti. Það var lífsbjargarlist langrar reynslu að leggja netin á hæfilegu dýpi og hentaði allt önnur aðferð á leirunum, þar sem botninum smáhallaði út í hyldýpið, en við eyrar og víkur hlíðarinnar, þar sem malarkamburinn féll víða snarbrattur í djúpið skammt frá landi.

Fátt var í þá tíð jafndýrlegt ungum manni og að fá að hvíla í stefni prammans á gljáðum vormorgni, horfa upp í endalausan bláma himinsins og hlusta á margradda sinfón fugla úr skógi og holtum, mýrum og síkjum, en undir súð bátsins kliðmjúka gjálfrandi vatnsins við áratog föður míns. Undir þunnri skel leyndist sjálfur dauðinn í vatninu, ef maður hrökk útbyrðis, en í fleti þess spegluðust grænar hlíðar skógarins, sem voru að springa af þróti vaknandi lífs.

Þetta vatn, sem bjó yfir dauða manna, bjó líka yfir lífi þeirra fagurlitu fiska með dökkvan rauðdoppóttan hrygg og hvítan, bleikan eða rauðan kvið, er voru mest lostæti í þessari sveit. Þeirra dauði var að koma upp úr vatninu inn í þá dýrð fuglasöngs og skógarilms, sem við önduðum að okkur. Svo einfaldar og þó skiljanlegar þversagnir lífs og dauða birti þessi sveit börnum sínum á björtum vordögum.

Ekkert var margbreytilegra í Skorradal en vatnið. Það var aldrei eins stundinni lengur. Ný ský spegluðu sig í fleti þess og nýjar öldur risu þar með nýju ljósbroti á hverri stund. Ef til vill var það þó leyndardómsfyllst á myrkum, votum kvöldum þegar ofgnótt þungrar grænku sumrgamalla skógarlaufa hverfðist yfir sorta og úti í þokum dalsins kváðu við kvein himbrimans, þessa dularfulla fugls, er sigldi um vatnsflötinn einmana og djúpsyndur og hló hlátri útburðar. Þá gátu skvomp og öldusog í grýttu flæðarmáli myndað óhugnanlega óratóríu afturgangna og drauga. Þróttmikið og ægifagurt var það í hvössum norðanvindi þegar blámi þess var síbrotinn af fysandi hvítum ölduföldum og brimfroðan haugaðist við ströndina.

Skorradalur framanverður er þó ein veðursælust sveit á Suðvesturlandi og óbrotinn spegill vatnsins í stillilogni sumarmorgna geymir margar minningar mínar frá æskuárum, en samt gátu komið ofsaveður af landsuðri og minnist ég þess að sjá vatnið rjúka til himins svo að ekki sá í hlíðar dalsins, heldur hvítan vegg, þar sem höfuðskepnur lofts og lagar tókust á.

Fuglalíf var mikið á mínum æskuárum við framanvert vatnið á Fitjaá og síkjum, sem skárust milli hólma og nesja, er þar verða, enda kom blessun minkaræktar ekki í þessa sveit fyrr en eftir að ég var farinn þaðan. Skógurinn umdi liðlangt vorið af söng glaðbeittra þrasta. Lóur, spóar, stelkar, hrossagaukar, maríuerlur, steindeplar, músarrindlar, kjóar, tjaldar, lóuþrælar og óðinshanar ólu þarna upp börn sín við flutning þeirrar eilífðarhljómkviðu, sem hvorki átti sér upphaf né endi, svo að ekki sé talað um allar endurnar, er víða verptu og stundum neðst í skóginum. Á sandflesjum úti við vatnið verptu kríur og háðu óskilorðsbundna styrjöld við veiðibjöllur, hrafna og kjóa auk þeirra leifturárása, sem þær gerðu á okkur kúasmala þegar reka skyldi gripi úr engjum. Þær voru þó öllum fuglum hugrakkari og þokkafyllri á flugi. Einstaka sinnum verptu svanahjón, ýmist í Álftarhólmanum í mynni síkisins Skrubbu norður undir Fitjahlíðinni eða í Víðirhólmanum suður við ána úti við vatnið. Ég minnist aldrei nema einna svanahjóna á vatninu yfir hásumarið, en bæði vor og haust voru stórir flotar álfta á grynningum við enda þess. Man ég að oft söfnuðust þar nær hundrað álftir á ferðalögum sínum. Á vorin háðu ungir steggir miklar hólmgöngur með stóru vængjablaki og háum hljóðum, sem vart verðskulduðu hið rómantíska heiti svanasögnur. Á haustin þegar næturfrost fóru að og kæla lá í loftinu voru hljóð svananna allt önnur; angurvært kvak, tregablandinn söngur, sem hljómaði á kvöldin í fullkomnu samræmi við bleikar engjar, litverpar hlíðar og skógarins gulu lauf.

Skógurinn bjó yfir sínum leyndardómum ekki síður en vatnið og hann var síbreytilegur eins og það. Þó var meiri reglufesta í breytileik hans. Hver árstíð bar sinn sérstaka svip. Á veturna stóð hann svartur og þögull upp úr hvítri fönn og gaf landslaginu úlfgráan svip. Einstaka sinnum viðraði svo að hrím fraus á greinum trjánna. Þannig var hann ævintýralegastur í vetrarfrosti þegar stirndi á ískristalla upp allar brekkur og skógarbreiðan var hvít tilsýndar. Það var fáförult um skóginn á vetrum. Snjór lá þar oft djúpur og jafnfallinn og reif ekki af í skjóli trjánna eins og þar sem skóglaust var. Skepnur gengu ekki í skóginum eftir áramót þegar þær voru komnar á gjöf. Helsta erindið í skóginn var að sækja þangað eldivið. Fuglar voru horfnir nema ef stakur hrafn flaug á milli kletta og í skógarbrúnunum mátti stundum heyra rjúpukarra ropa.

Þegar sólfar jókst og snjóa leysti breytti skógurinn brátt um svip. Hinn dauði sorti hvarf en roði færðist í trjágreinarnar. Man ég oft eftir skóginum rauðbrúnum lengi á svölum vordögum. Tíðum voru einna langvinnust þurrviðri í Skorradal snemma á vorin, á einmánuði og hörpu. Þá gátu norðanþræsingar haldist dögum saman. Jörð grænkaði ekki og bítandi íshafsvindur næddi um menn og skepnur, um nakin holt og sinufölar brekkur. Í slíkri tíð voru sauðfé og hross einatt rekin út í skóg og man ég hvílík svíun það var að koma úr nístandi storminum inn í skóginn þar sem var nærri logn og einstaka, grænt strá teygðist upp úr gljúpum, þurrum mosanum í skjóli trjánna.

Mér finnst endilega að skógarþrösturinn hafi komið fyrstur allra fugla á vorin. Hann var fallegur með sína rauðu bringu og snyrtilega og samræmisfulla útlit. Svo var hann líka skemmtilegur; hávær og söngvinn, síkvikur og starfandi, óhræddur og duglegur. Hann var ævinlega kominn löngu áður en skógurinn laufgaðist og skordýr fóru að marki á kreik. Þá leituðu þrestirnir í stórum hópum heim að bæ og þóttu hesthúshaugarnir fínastir restaurantar í þessum sóknum. Man ég að þeir grófu stundum djúpar holur inn í haugana eins og mýs og urðu oft miklar hrundningar er margir voru í sömu holu og þurftu allir að komast út í einu þegar fólk eða fénaður kom skyndilega að. Svo sprengdu laufin brum sín og á nokkurm dögum varð Skorradalur önnur veröld.

Af langri vist á köldu landi er íslenska björkin varfærið tré. Hún laufgast seint og fer sér að engu óðslega. Örsmá laufin gægjast út límug af kvoðu og frá fæðingu næstum jafndökk og fullvaxin. Skógurinn fær því aldrei hinn jómfrúarlega, gulgræna lit suðlægari laufskóga. En aldrei er ilmur bjarkarinnar jafnáfengur og þá daga sem hún laufgast. Um svipað leyti voru kýrnar leystar út og þegar skógurinn stóð allaufgaður og gróður kominn í brekkur hans, rjóður og geira hófst sumarstarfi kúasmalans. Það var létt verk litlum karli að reka kýrnar en þrautin þyngri að finna þær ef þær leyndust í þykkninu, þar sem ekkert sást tilsýndar nema dimmgrænt haf milljóna laufa. Að vísu þóttist smalinn heldur en ekki í manna tölu ef hann var ríðandi í sólskini og góðu veðri en hestar voru ekki alltjent tagltækir, og það rigndi oft í Skorradal.
Eftir á veit ég þó ekki hvort mörg uppeldisáhrif bernsku minnar hafa reynst mér hollari í lífinu en að hafa leitað nautpenings í regnvotum, þykkum skógi. Leti var löstur, sem í Skorradal á mínum uppvaxtarárum var talinn boða ævilanga ógæfu, og hugtakið að gefast upp við ætlunarverk stóð hvergi skráð á blöðum trjánna, en það voru einu lexíkon í uppeldisfræðum sem sveitin átti. Eftirminnilegust er mér kúasókn vorið sem ég var átta ára. Hestar voru engir heima og það hafði rignt nokkra daga. Eftir tveggja tíma leit út að Merkjum og aftur inn fyrir skóg þóttist ég sjá af klaufnasparki og kúaklessum, en það voru merk vísindi að aldursákvarða þau teikn, að kýrnar væru utar í skóginum. Fór ég nú aðra ferð en án árangurs og tók þá af fávisku að smjúga upp um skóginn og sá því minna sem ég kom dýpra í þykknið en þá kynntist ég fyrst landslagi og gerð Klausturskógarins innan frá. Varð ég brátt holdvotur, því að alltaf rigndi og af laufþekjunni lak í þungum dropum. Kom þar að smalinn grét ekki síður en ský himinsins og blöð trjánna. Enn réð ég þó af teiknum í götunum að kýrnar væru í skóginum og lagði aftur upp og sem ég vafraði heim frá Merkjunum hið þriðja sinn eftir nær sex stunda leit, heyrði ég ofar í skóginum nautsöskur og þar með var þrautin unnin. Það stóðu miklar gufur upp af smala og hjörð, þar sem við lötruðum heim í lognregninu; ég fann sjálfan mig meiri mann eftir leitina og grét held ég ekki framar yfir slíkum smámunum sem að finna kýr í skógi.
Oftar en hitt var sókn kúnna út í hlíðina þó áhyggjulaus ganga í dýrlegum unaði eftir ilmandi skógargötum, þar sem gróska og litskrúð hlógu við augum.

Enginn mosi jafnast á við skógarmosann um mýkt og gljúpleik. Upp úr honum vaxa ótal langar punttegundir og yfirleitt verður allt gras hátt í logni og skuggsælu trjánna. Þarna var líka alls konar blómgresi og lyng. Á melhólunum, þar sem Efrigötur lágu, óx blóðberg í flesjum og krækirber; alls staðar var bláberjalyng og víða hrútaber. Fjalldalafífillinn drúpti höfði og gulmuran ilmaði og handstórir burknar seildust upp á skuggsælustu stöðum. Ekkert af blómum skógarins var þó jafngöfugt og blágresið, sem óx í stórum flákum úr því að fram kom í júli. Það var svo aðalsborið og fíngert að vonlaust var að tína úr því vönd. Blómin voru fölnuð áður en heim var komið. Þó að skógurinn lyfti þannig smám saman tjaldi frá djásnum sínum við nánari kynni hélt hann samt ávallt dul sinni og mátti endalaust finna áður óþekkt rjóður og áður óþekkta runna og sérstæð tré.

Laufhaf birkiskógar kann við fyrstu sýn að orka sem næsta eintóna og tilbreytingarlítil grænka, en sá einn, sem kynnst hefur þessum sama skógi í öllum sumarsins veðrum, sól og regni, vindi og logni, veit hvílíkri fjölbreytni græni liturinn býr yfir. Hugstæðastur er mér Vatnshornsskógurinn á sumrin í stinningsgolu og sólskini. Þegar vindsveipirnir svipta til krónum trjánna undir sól að sjá verða þar öll litbrigði frá gljáa silfurs yfir í hvítgrænt, blágrænt, dimmgrænt og svart. Samtímis ymur öll laufharpa hlíðarinnar með ólýsanlegum, hvíslandi niði, þar sem golan leikur á strengi trjánna.

Um leið verður annað sjónarspil á vatninu með hvítfextum bárum og endanlausu ljósbroti í bláma þeirra. Niðri við fjöruna yfirgnæfir niður öldunnar þyt skógarins, en í hæfilegri fjarlægð uppi í brekkunni mynda þessar tvær hjómsveitir náttúrunnar slíkan samhljóma konsert, sem í engum stað öðrum verður heyrður né heldur séð sú sinfónía lita í hvítu, bláu og grænu, er þar getur að líta.

Vatnshornsskógurinn tók mig strax fanginn síðsumars 1935. Þá fékk ég í fyrsta sinn að fara með foreldrum mínum út á Skorrhólseyrina. Hún var heyjuð þetta sumar og á höfuðdag voru þau að hirða heim af henni. Þetta var skýlaus, heitur sólskinsdagur og ég hafði ekki annað að gera en leika mér: kanna hólinn nafna míns, tína hrútaber, elta hronsíli í lækjum og víkum, leita skrautlegra steina og gleypa í mig áhrif skógar og vatns. Um kvöldið létu móðir mín og kaupakona spretta úr spori heim til bústangs og mjalta en faðir minn fór á eftir með lest heybands af þessari ilmandi töðu eyrarinnar. Það var orðið myrkt og þar sem hann reiddi mig fyrir framan sig sá ég ekki annað nærri en hvítt, jafnskipt fax hestsins, sem hófst og féll í takt við fótaktak hans. Skógurinn drúpti síðsumarþungur og dimmgrænn í logni kvöldsins og handan Fitjahlíðar, sem gnæfði brött og svört, reis tunglið og lagði tindrandi ljósbrú á vatnið.
Mér er með öllu horfið hvernig þessari heimferð lauk, enda lá silfurvegur mánans beint inn í eilífðina.
—–
Þau orð ömmu minnar rættust að vísu að hvorugt okkar skoðaði Dragafellið undir kryppu ormsins í Skorradalsvatni. Hugboð mitt hefur þó ræst. Með vissum hætti hef ég orðið vitni að heimsendi þess lífs, sem lifað var í fram-Skorradal í bernsku minni. Þessar slóðir hafa nú lengi verið í eyði og þegar ég kom þar í sumar var Vatnshornshlíðin enn ósnortnari og ógreiðfærari en var á mínum kúasmaladögum.

Líka get ég vel hugsað mér heimsendi míns eigin lífs tengdan þessum slóðum með þeim hætti að mér þyki ég vera sóttur af svartklæddum manni á bleikum hesti og við fara mikinn eftir fölum ísi vatnsins inn í óendanlegan, myrkan skóg.

 

Kaupmannahöfn 10.-14.sept. 1976.

 

Fjölskyldan í Vatnshorni.  Aftari röð: Höskuldur, Sveinn Skorri, Kristjana og Sigríður. Fremri röð: Bjarni, Einar og Sólveig. Myndin er tekin 1955.
Fjölskyldan í Vatnshorni. Aftari röð: Höskuldur, Sveinn Skorri, Kristjana og Sigríður. Fremri röð: Bjarni, Einar og Sólveig. Myndin er tekin 1955.

Á tímabili birtust stuttir þættir í Morgunblaðinu undir heitinu Sveitin mín er…
Rætt var m.a. við Svein Skorra. Hér á eftir fer sá pistill:

 

„Mín sveit er Skorradalur,“ segir Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor. „Tilfinningar mínar til hans eru hluti af sjálfselsku minni – eða eigum við að nota það hátíðlega orð sjálfsvirðingu.“

Sveinn Skorri segir Skorradalinn í raun vera einu sveitina sem hann þekki og eina staðinn þar sem hann eigi heima. „Ég ólst þarna upp frá þriggja ára aldri til fermingar og þarna þekki ég landskapinn í öllum veðrum, öll ljósbrigði loftsins og litrigði jarðarinnar. Hvar sem ég er staddur þarf ég ekki annað en loka augunum og ég er kominn þangað.“
Einkenni Skorradals telur Seinn vera þessa ójarðnesku, dulúðugu sinfóníu lita og hljóma: „Grænt, blátt og hvítt í óendanlegum tilbrigðum. Skógur, vatn og brotnandi alda. – og svo hljómurinn: Niður báru, ymur bjarkar í einum samhljómi. – Kannski þó mest af öllu hin kristalstæra kyrrð, sem þarna var forðum, en nú verður helst fundin snemma á morgnana áður en vélar nútímans taka að glymja. Ef ég fer á bát mínum út á hvítblátt vatnið á slíkum morgni og horfi fram í dalbotn, verð ég í senn einkennilega dapur og hamingjusamur: Hví leggur hvergi reyk til himins? Hví liggja þær hendur, sem hlúðu að eldum æsku minnar, kaldar í gröf? Hví er mér enn leyft að líta þessa mynd?
Þá skil ég þá menn í forneskju sem dóu í fjöll sín. Ég get vel hugsað mér að deyja inn í þennan dal,“ segir Sveinn Skorri að lokum.

 

Sveinn Skorri Höskuldsson (1930-2002)

vatnid-og-skogurinn-3Sveinn Skorri fæddist á Sigríðarstöðum í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 19. apríl. Foreldrar hans voru Höskuldur Einarsson bóndi og Sólveig Bjarnadóttir.
Sveinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1950 og MA-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1958. Sveinn stundaði auk þess nám í dönskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla árið 1958-1959, í enskum bókmenntum við Manitoba-háskóla í Winnipeg árið 1960-1961 og bókmenntum við Háskólann í Uppsölum árin 1964-1967. Þá lagði hann stund á rannsóknir við helstu háskóla Danmerkur, Kanada og Þýskalands um árabil. Sveinn Skorri var lektor í íslensku máli og bókmenntum við Uppsala-háskóla í sex ár 1962-1968, en árið 1968 tók hann við stöðu lektors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Tveimur árum síðar, 1970, var hann skipaður prófessor við sama skóla og gegndi því starfi þar til hann komst á eftirlaunaaldur.
Sveinn Skorri er á félagaskrá Blaðamannafélags Íslands 1959. Hann er þá blaðamaður á Tímanum og hefur starfað þar um hríð sem sumarmaður og með háskólanámi.
Í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir! er haft eftir Halli Símonarsyni vegna óvænts fráfalls Hauks Snorrasonar ritstjóra: „Eftir lát Hauks kom ansi mikill drungi yfir Tímann þó við værum þá með geysigott lið blaðamanna. Jökull Jakobsson var þarna, Sveinn Skorri Höskuldsson, Ólafur Jónsson, Óli Gaukur, Sveinn Sæmundsson og fleiri.“
Sveinn Skorri var hins vegar farinn til náms í Winnepeg í Kanada ári síðar og helgaði sig eftir það fræðastarfi.

http://www.hugras.is/2011/10/sveinn-skorri-hoskuldsson/

 

 
1. Sjá Nauðlending í Skorradal eftir Óskar Þórðarson frá Haga. Sjá sagnaskjóðu Haga (Hulda).
2. Sjá Laxdælu í sagnaskjóðu Vatnshorns og Sarps (Hulda).
3. Sjá Harðar sögu og Hólmverja í sagnaskjóðu Vatnshorns (Hulda).
4. Hér er átt við Guðmund, Stefán og Hallgrím Stefánssyni, þó einkum Guðmund og Stefán sem bjuggu alla tíð á Fitjum og eru jarðsettir í Fitjakirkjugarði. Hallgrímur flutti til Reykjavíkur (Hulda).
5. Björn skifaði sig alltaf Bjarnarson. Hann var bróðir Bjarna Björnssonar sem var afi Sveins Skorra (Hulda).