Stálpastaðir

Ólafur Ólafsson frá Eyri tók myndina árið 1963
Ólafur Ólafsson frá Eyri tók myndina árið 1963

Eina sem eftir er af bænum er hlaða sem var austasti hluti húsanna. Haukur Thors keypti jörðina og gaf til skógræktar árið 1951.

Úr Jarðabók Borgarfjarðar- og Mýrasýslu

Stálpastader

Jarðardýrleiki viii c# og so tíundast.

Eigandinn Valgerður Eyjólfsdóttir, búandi á Skúmstöðum á Eyrarbakka.

Ábúandinn Ásbjörn Jónsson.

Landskuld lxxx [álnir vantar]. Betalast í öllum gildum landaurum til alþíngiss.

Leigukúgildi kallar landsdrottinn hjer vera iiii, en ábúandi, [sem tók við þessu búi að erfðum eftir bróðir sinn, en bróðir hans eftir föður beggja þeirra], kveðst ekki í því búi meðtekið hafa lifandi kvikfje nema xi ær, iiii þar af lamblausar, i kú fjórtán vetra gamla tvígeldmjólka, samt hafi landstrottinn af sjer leigur heimt, so sem eftir iiii kúgildi, og so kveðst hann goldið hafa árlega vætt smjörs í næstliðin 8 ár, og þángað afhent, sem tilsagt hefur verið innan hjeraðs, en af landsdrotni öngva uppbót þegið; telur hann sig hafa tilvitað í næstu 30 ár, sem aldrei hafi hjer kúgildi nein verið undir landsdrottins marki í sinni tíð, og sins bróðurs og föðurs beggja þeirra. Í leigna nafni betalast sem nú var sagt.
Kvaðir öngvar.

Kvikfje iiii kýr, i kvíga að fyrsta kálfi, ii kálfar, xl ær með lömbum, ii lamblausar, xix sauðir tvævetrir og eldri, xxix veturgamlir, iii hestar.

Fóðrast kann iii kýr, ii úngneyti, xx lömb, xxx ær, ii hestar. Hinu er vogað öllu.

Skógur til kolgjörðar og eldiviðar nægur, hjer er og enn raftviður tekinn til húsabótar.

Torfrista og stúnga sem segir um Háafell.

Silúngsveiðivon góð í Skoradalsvatni.

Túninu grandar lækjarskriða úr fjalli.