Eyjólfur Guðmundsson (1835 – 1907) fluttist 6 ára gamall með móður sinni að Fitjum árið 1841 og ólst þar upp. Hann bjó á ýmsum jörðum í Skorradal, en upp úr 1890 fór hann til Ameriku og bjó þar til dánardægurs.
Eyjólfur eignaðist sex börn með konu sinni Ingveldi Sveinbjarnardóttur (1843-1877) og eitt barn með Valgerði Einarsdóttur (1867-1947).
Eyjólfur var talinn bóndi á Fitjum 1861-68, í Bakkakoti 1868-72, í Hvammi 1872-76, á Horni, 1881-82 og í Efri-Hrepp 1882-83. Síðar var hann víða í húsmennsku og lausamennsku og fékkst m.a. við barnakennslu.
Eftirfarandi BÆNDARÍMA í 32 erindum er eftir Eyjólf. Hún er um bændur í Skorradal árin 1895 og 1896, því einungis þau ár eru yrkisefnin búandi á bæjunum samtímis. Rétt er að nefna að Eyjólfur var blóðskyldur Fitjafólki, sem hann mærir öðrum fremur í erindum 10-13. Vigdís á Fitjum og Eyjólfur voru systrabörn Halldóru og Guðrúnar Eggertsdætra, Guðmundssonar prests og prófasts í Reykholti frá 1807-1932 og sýslumanns Borgarfjarðarsýslu frá 1811- 1832 (1).
Þær jarðir sem tilheyra Fitjasókn eru auðkenndar með dökku letri.
- Þó ekki kunni ég orðaval,
yrkja nokkrar bögur.
Skal Skorradals um skatna hér,
þó skáldi aðrir betur mér.
- Beztur talinn búhöldur,
bóndinn Pétur greiðugur.
Ellihníginn er á Grund,
oft bar fyrri holla lund.
- Dyggðum búinn darra grer,
dugnað sýnir líka hér.
Á Vatnsenda Bjarni býr,
bóndi sá er talinn skýr.
- Hvamminn byggir hróðugur,
hann Sigurður tölugur.
Fremur dæmdist frómur sá,
fátækur í basli á.
- Í Dagvarðarnesi nú nýr
oddviti heldur bú.
Er þrígiftur Oddur minn,
ekki brestur stillingin.
- Á Gunnarseyri gamli Jón
gerist erginn nú um frón.
Sá mun lifa á silung þó,
sem úr Skorra vatni dró.
- Stálpastaða stýrir lóð
stilltur Gísli lund er góð.
Ærið klókan Ýtar tjá,
en ekki meira segja má.
- Efnum búinn Ólafur
er sá talinn fjölhæfur.
Háafellið heldur sá,
hyggindi sín treystir á.
- Fitjakoti unir á
ötull Narfi og baugagná.
Þó riði skalla rekkurinn,
að Rönku hallast karlfuglinn.
- Mikill gáfumaður er,
munu hans fáir líkar hér.
Heitir Stefán hreppstjórinn,
heldur Fitja, vel metinn.
- Með sinni móður situr bú,
sú er líka í öllu trú.
Vigdís heitir valkvendi,
af valinkunnu ætterni.
- Annan bróður ég svo tel,
sem einatt stundar búið vel.
Hlaðinn kurt og heiðri er,
hann Júlíus Kristófer.
- Hans er bróðir húsmaður,
hirðir fénað Ólafur,
listum búinn laufaver,
líka sæmd og gáfur ber.
- Magnús stunda má vel bú,
mörg þó valla hafi hjú,
siðprúður í Sarpi býr,
sá er ungur baugatýr.
- Sérlundaðan Sigurð tel,
sá er fróður mætavel.
Í Efstabæ er auðugur,
af elli beygist nauðugur.
- Björg í koti Bakka nú,
býr sem ekkja snótin sú.
Alla daga ævi sín,
iðkar dyggðir baugalín.
- Lukkumaður langséður,
líka reynist velkynntur.
Á Vatnshorni býr hann Björn,
brögnum snauðum sýnir vörn.
- Með ergjum safnar einatt fé,
oft þó skipt hans búi sé,
gerist Jóhann gamlaður,
í Grafardalnum þríkvæntur.
- Lítilmeni á lístir þver,
leiða heimsku Gvendur ber,
sá vill una í Svanga þó,
sínum kindum smalar nóg.
- Guðjón dugnað sýnir sinn
sóma maður gestrisinn.
Á Drageyri ynnri sá,
örðugt stunda búið má.
- Páll Drageyri ytri á,
ógiftur er bóndi sá.
Af góðu kyni gestrisinn,
greindur maður orðheldinn.
- Sífellt góssi safna vann,
semja Jóhann ráðin kann.
Indriða á stórum stað,
styður búin mikið það.
- Á sama bæ er Þorsteinn þar,
þessi temur hesta snar.
Hrakning tíðum er hann á,
organisti lærður sá.
- Margoft hreppti mikið tjón,
Mófellsstaða bóndinn Jón.
Sífellt dugnað sýnir hann,
siðprýði og dyggðum ann.
- Kaldárbakka karlmenni, ( úr landi Mófellsstaða)
kann ég hrósa Erlendi.
Er fátækur alla stund,
en ekki brestur þreki lund.
- Á Kolbeinsstöðum Sigurð sá, (Mófellsstaðakot)
sem er Grafardalnum frá.
Hæglátur er hjörvatýr,
en heldur sagður efnarýr.
- Magnús Horni er nú á,
yrkir frónið bezt sem má.
Fjörið nóg og frækleik ber,
en furðu stífur maður er.
- Á Efrihrepp er Arabur,
ungur bóndi Runólfur.
Dugnað mikið sýnir sinn,
sóma líka er búinn.
- Hreppinn neðri heldur Jón,
heyjar vel að margra róm.
Vel er giftur seggur sá,
sómi hans er baugagná.
- Hyggindum með heldur bú,
Hálsum ræður Jósep nú.
Höldar lofa heiðursmann,
hann oft styður velgæfan.
- Stafhendingu þessa þá,
þegnar mega heyra og sjá.
Þeir sem kunna laga ljóð,
lagfæri með orðin fróð.
- Sá er orkti um seggi að,
sést hér oft um láð.
Við eyju kenna úlf þann má,
Austurlandi kominn frá.
Nánari heimildir um þá sem koma fyrir í rímunni er að finna í Borgfirskum æfiskrám, bindum I – XII sem hér segir, talið eftir vísunúmerum:
- Innleiðing höfundar.
- Grund: Pétur Þorsteinsson 1828-1907. BÆ IX: 87-88.
- Vatnsendi: Bjarni Loftsson 1845-1914. BÆ I: 356-357.
- Hvammur: Sigurður Jóhannesson 1857-1902. BÆ X: 148.
- Dagverðarnes: Oddur Þorleifsson 1848-1933. BÆ VIII: 107-108.
- Gunnarseyri: Jón Jónsson 1828-1913. BÆ VI: 67-68.
- Stálpastaðir: Gísli Ögmundsson 1837-1917. BÆ III: 68.
- Háafell: Ólafur Björnsson 1844-1906. BÆ VIII: 146.
- Fitjakot: Narfi Bjarnason 1832-1917. BÆ VIII: 12-13.
- Fitjar: Stefán Guðmundsson 1864-1933. BÆ X: 523-524.
- Fitjar: Vigdís Magnúsdóttir Waage 1830-1902. BÆ III: 387
- Fitjar: Júlíus Kristófer Guðmundsson 1856-1899. BÆ VI: 428-9.
- Fitjar: Ólafur Guðmundsson 1861-1921. BÆ VIII: 179.
- Sarpur: Magnús Gunnlaugsson 1859-1932. BÆ VII: 335.
- Efstibær: Sigurður Vigfússon 1821-1906. BÆ X: 315.
- Bakkakot: Björg Davíðsdóttir 1852-1914. Ekkja Jóns Sæmundssonar 1836-1894. BÆ VI: 282.
- Vatnshorn: Björn Eyvindsson 1825-1899. BÆ I: 410-411.
- Grafardalur: Jóhann Helgason 1835-1909. BÆ V: 159.
- Svangi (Hagi): Guðmundur Sigurðsson 1849-1930. BÆ III: 414-415.
- Drageyri innri (stóra): Guðjón Hinriksson 1851-1938. BÆ III: 135-136.
- Drageyri ytri (litla): Páll Pálsson 1846-1916. BÆ VIII: 433-434.
- Indriðastaðir: Jóhann Torfason 1831-1911. BÆ V: 181-182.
- Indriðastaðir: Þorsteinn Pétursson 1864-1927. BÆ XII: 389-390.
- Mófellsstaðir: Jón Þórðarson 1845-1917. BÆ VI: 345-346.
- Kaldárbakki: Erlendur Magnússon 1840-1916. BÆ II: 255-256.
- Kolbeinsstaðir: Sigurður Gamalíelsson 1856-1919. BÆ X: 76-77.
- Horn: Magnús Magnússon 1847-1930. BÆ VII: 379.
- Efrihreppur: Runólfur Arason 1863-1940. BÆ IX: 226-227.
- Neðrihreppur: Jón Jónsson 1851-1923. BÆ VI: 87-88.
- Hálsar: Jósef Jósefsson 1839-1914. BÆ VI: 417.
31 & 32 um höfundinn Eyjólf, BÆ II: 282. Faðir hans var prestur á Hólmum í Reyðarfirði.
Uppskrift og heimildaleit 2017:
Ingibjörg Vigdís Ottósdóttir. Amma hennar var Vigdís Klara Stefánsdóttir, fædd og uppalin á Fitjum en vélritað blað með rímunum var í kofforti sem Vigdís átti. Hver vélritaði eða hvar frumritið er, er óþekkt.