Bændaríma

Eyjólfur Guðmundsson (1835 – 1907) fluttist 6 ára gamall með móður sinni að Fitjum árið 1841 og ólst þar upp. Hann bjó á ýmsum jörðum í Skorradal, en upp úr 1890 fór hann til Ameriku og bjó þar til dánardægurs.

Eyjólfur eignaðist sex börn með konu sinni Ingveldi Sveinbjarnardóttur (1843-1877) og eitt barn með Valgerði Einarsdóttur (1867-1947).

Eyjólfur var talinn bóndi á Fitjum 1861-68, í Bakkakoti 1868-72, í Hvammi 1872-76, á Horni, 1881-82 og í Efri-Hrepp 1882-83. Síðar var hann víða í húsmennsku og lausamennsku og fékkst m.a. við barnakennslu.

Eftirfarandi BÆNDARÍMA í 32 erindum er eftir Eyjólf. Hún er um bændur í Skorradal árin 1895 og 1896, því einungis þau ár eru yrkisefnin búandi á bæjunum samtímis. Rétt er að nefna að Eyjólfur var blóðskyldur Fitjafólki, sem hann mærir öðrum fremur í erindum 10-13. Vigdís á Fitjum og Eyjólfur voru systrabörn Halldóru og Guðrúnar Eggertsdætra, Guðmundssonar prests og prófasts í Reykholti frá 1807-1932 og sýslumanns Borgarfjarðarsýslu frá 1811- 1832 (1).

Þær jarðir sem tilheyra Fitjasókn eru auðkenndar með dökku letri.

 

  1. Þó ekki kunni ég orðaval,
    yrkja nokkrar bögur.
    Skal Skorradals um skatna hér,
    þó skáldi aðrir betur mér.
  1. Beztur talinn búhöldur,
    bóndinn Pétur greiðugur.
    Ellihníginn er á Grund,
    oft bar fyrri holla lund.
  1. Dyggðum búinn darra grer,
    dugnað sýnir líka hér.
    Á Vatnsenda Bjarni býr,
    bóndi sá er talinn skýr.
  1. Hvamminn byggir hróðugur,
    hann Sigurður tölugur.
    Fremur dæmdist frómur sá,
    fátækur í basli á.
  1. Í Dagvarðarnesi nú nýr
    oddviti heldur bú.
    Er þrígiftur Oddur minn,
    ekki brestur stillingin.
  1. Á Gunnarseyri gamli Jón
    gerist erginn nú um frón.
    Sá mun lifa á silung þó,
    sem úr Skorra vatni dró.
  1. Stálpastaða stýrir lóð
    stilltur Gísli lund er góð.
    Ærið klókan Ýtar tjá,
    en ekki meira segja má.
  1. Efnum búinn Ólafur
    er sá talinn fjölhæfur.
    Háafellið heldur sá,
    hyggindi sín treystir á.
  1. Fitjakoti unir á
    ötull Narfi og baugagná.
    Þó riði skalla rekkurinn,
    að Rönku hallast karlfuglinn.
  1. Mikill gáfumaður er,
    munu hans fáir líkar hér.
    Heitir Stefán hreppstjórinn,
    heldur Fitja, vel metinn.
  1. Með sinni móður situr bú,
    sú er líka í öllu trú.
    Vigdís heitir valkvendi,
    af valinkunnu ætterni.
  1. Annan bróður ég svo tel,
    sem einatt stundar búið vel.
    Hlaðinn kurt og heiðri er,
    hann Júlíus Kristófer.
  1. Hans er bróðir húsmaður,
    hirðir fénað Ólafur,
    listum búinn laufaver,
    líka sæmd og gáfur ber.
  1. Magnús stunda má vel bú,
    mörg þó valla hafi hjú,
    siðprúður í Sarpi býr,
    sá er ungur baugatýr.
  1. Sérlundaðan Sigurð tel,
    sá er fróður mætavel.
    Í Efstabæ er auðugur,
    af elli beygist nauðugur.
  1. Björg í koti Bakka nú,
    býr sem ekkja snótin sú.
    Alla daga ævi sín,
    iðkar dyggðir baugalín.
  1. Lukkumaður langséður,
    líka reynist velkynntur.
    Á Vatnshorni býr hann Björn,
    brögnum snauðum sýnir vörn.
  1. Með ergjum safnar einatt fé,
    oft þó skipt hans búi sé,
    gerist Jóhann gamlaður,
    í Grafardalnum þríkvæntur.
  1. Lítilmeni á lístir þver,
    leiða heimsku Gvendur ber,
    sá vill una í Svanga þó,
    sínum kindum smalar nóg.
  1. Guðjón dugnað sýnir sinn
    sóma maður gestrisinn.
    Á Drageyri ynnri sá,
    örðugt stunda búið má.
  1. Páll Drageyri ytri á,
    ógiftur er bóndi sá.
    Af góðu kyni gestrisinn,
    greindur maður orðheldinn.
  1. Sífellt góssi safna vann,
    semja Jóhann ráðin kann.
    Indriða á stórum stað,
    styður búin mikið það.
  1. Á sama bæ er Þorsteinn þar,
    þessi temur hesta snar.
    Hrakning tíðum er hann á,
    organisti lærður sá.
  1. Margoft hreppti mikið tjón,
    Mófellsstaða bóndinn Jón.
    Sífellt dugnað sýnir hann,
    siðprýði og dyggðum ann.
  1. Kaldárbakka karlmenni, ( úr landi Mófellsstaða)
    kann ég hrósa Erlendi.
    Er fátækur alla stund,
    en ekki brestur þreki lund.
  1. Á Kolbeinsstöðum Sigurð sá, (Mófellsstaðakot)
    sem er Grafardalnum frá.
    Hæglátur er hjörvatýr,
    en heldur sagður efnarýr.
  1. Magnús Horni er nú á,
    yrkir frónið bezt sem má.
    Fjörið nóg og frækleik ber,
    en furðu stífur maður er.
  1. Á Efrihrepp er Arabur,
    ungur bóndi Runólfur.
    Dugnað mikið sýnir sinn,
    sóma líka er búinn.
  1. Hreppinn neðri heldur Jón,
    heyjar vel að margra róm.
    Vel er giftur seggur sá,
    sómi hans er baugagná.
  1. Hyggindum með heldur bú,
    Hálsum ræður Jósep nú.
    Höldar lofa heiðursmann,
    hann oft styður velgæfan.
  1. Stafhendingu þessa þá,
    þegnar mega heyra og sjá.
    Þeir sem kunna laga ljóð,
    lagfæri með orðin fróð.
  1. Sá er orkti um seggi að,
    sést hér oft um láð.
    Við eyju kenna úlf þann má,
    Austurlandi kominn frá.

 

Nánari heimildir um þá sem koma fyrir í rímunni er að finna í Borgfirskum æfiskrám, bindum I – XII sem hér segir, talið eftir vísunúmerum:

  1. Innleiðing höfundar.
  2. Grund: Pétur Þorsteinsson 1828-1907. BÆ IX: 87-88.
  3. Vatnsendi: Bjarni Loftsson 1845-1914. BÆ I: 356-357.
  4. Hvammur: Sigurður Jóhannesson 1857-1902. BÆ X: 148.
  5. Dagverðarnes: Oddur Þorleifsson 1848-1933. BÆ VIII: 107-108.
  6. Gunnarseyri: Jón Jónsson 1828-1913. BÆ VI: 67-68.
  7. Stálpastaðir: Gísli Ögmundsson 1837-1917. BÆ III: 68.
  8. Háafell: Ólafur Björnsson 1844-1906. BÆ VIII: 146.
  9. Fitjakot: Narfi Bjarnason 1832-1917. BÆ VIII: 12-13.
  10. Fitjar: Stefán Guðmundsson 1864-1933. BÆ X: 523-524.
  11. Fitjar: Vigdís Magnúsdóttir Waage 1830-1902. BÆ III: 387
  12. Fitjar: Júlíus Kristófer Guðmundsson 1856-1899. BÆ VI: 428-9.
  13. Fitjar: Ólafur Guðmundsson 1861-1921. BÆ VIII: 179.
  14. Sarpur: Magnús Gunnlaugsson 1859-1932. BÆ VII: 335.
  15. Efstibær: Sigurður Vigfússon 1821-1906. BÆ X: 315.
  16. Bakkakot: Björg Davíðsdóttir 1852-1914. Ekkja Jóns Sæmundssonar 1836-1894. BÆ VI: 282.
  17. Vatnshorn: Björn Eyvindsson 1825-1899. BÆ I: 410-411.
  18. Grafardalur: Jóhann Helgason 1835-1909. BÆ V: 159.
  19. Svangi (Hagi): Guðmundur Sigurðsson 1849-1930. BÆ III: 414-415.
  20. Drageyri innri (stóra): Guðjón Hinriksson 1851-1938. BÆ III: 135-136.
  21. Drageyri ytri (litla): Páll Pálsson 1846-1916. BÆ VIII: 433-434.
  22. Indriðastaðir: Jóhann Torfason 1831-1911. BÆ V: 181-182.
  23. Indriðastaðir: Þorsteinn Pétursson 1864-1927. BÆ XII: 389-390.
  24. Mófellsstaðir: Jón Þórðarson 1845-1917. BÆ VI: 345-346.
  25. Kaldárbakki: Erlendur Magnússon 1840-1916. BÆ II: 255-256.
  26. Kolbeinsstaðir: Sigurður Gamalíelsson 1856-1919. BÆ X: 76-77.
  27. Horn: Magnús Magnússon 1847-1930. BÆ VII: 379.
  28. Efrihreppur: Runólfur Arason 1863-1940. BÆ IX: 226-227.
  29. Neðrihreppur: Jón Jónsson 1851-1923. BÆ VI: 87-88.
  30. Hálsar: Jósef Jósefsson 1839-1914. BÆ VI: 417.

31 & 32 um höfundinn Eyjólf, BÆ II: 282. Faðir hans var prestur á Hólmum í Reyðarfirði.

Uppskrift og heimildaleit 2017:

Ingibjörg Vigdís Ottósdóttir. Amma hennar var Vigdís Klara Stefánsdóttir, fædd og uppalin á Fitjum en vélritað blað með rímunum var í kofforti sem Vigdís átti. Hver vélritaði eða hvar frumritið er, er óþekkt.

1Eggert Guðmundsson (1769-1832) var Stúdent frá Reykjavíkurskóla eldra 1790. Fékk Staðarhraun 10. ágúst 1792, Gilsbakka 4. október 1796 og Reykholt 22. apríl 1807 og var þar til dauðadags. Fékk reyndar Stafholt 1806 en fór ekki þangað. Varð sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu 1811 og hélt því til dauðadags. Hann var hraustmenni og frækinn en enginn sérlegur lærdómsmaður. Hann var auðugur og þótti nokkuð harðdrægur. Heimild: Íslenskar æviskrár PEÓ I bindi, bls. 318.