Eftir Þorgeir Sveinbjarnarson (1905-1971) úr Vísur Bergþóru frá 1955.
Hann kemur á góðviðrisdegi
dulur og feiminn
á brúnina móti bænum
með bláma í auga,
dreyminn,
með Helgakver undir hendi;
í spánýjum fötum,
farinn að ganga til prestsins,
geðslegur lækur
á leið út í heiminn.
Það er hiti til fjallsins.
Af hjarninu svitinn bogar.
og þetta er þyrstur lækur.
Nú fer hann á svig við fannir
og fær sér teyga við skarir.
En áfram hann rennur,
því ilmbrekkan togar
og tekur hug hans allan.
Hún setur á fætur hans sjömílnaskó,
en sólin í æðum hans logar.
Svo tekur hann sprettinn,
tiplar á steinum og stiklar,
hendist
og sendist
um hrapandi skriður,
hoppar og spriklar,
veltist um slakka
og nuddar sér eins og óþægur krakki
við aurinn í bakka,
atar út nýju fötin,
niðar og slítur þau sundur.
Með hávaða og sköllum
hljóm sinna strengja brýtur.
Því þetta er lækur,
sem leysingin seiddi
með sól inn til hlíða.
Hann fellur
um hellur
af hrjúfu bergi.
Hugur hans magnast.
Rödd hans þrymur í fossi,
sem flytur mál hans víða.
Og bráðum
eignast hann hyl
til að hylja í sorg sína og kvíða.
Að lokum kvíslast lækur um eyrar.
Láglendið straum hans slekkur.
Hann mynnist við á
og hrífst af henni
til strandar,
stilltur og þekkur.
Fer þar á fjörur við bárur,
festir ráð sitt í hafi
og sekkur.