Hvammur

Bjarni Jónsson var fæddur í Stritlu (Dalsmynni) í Biskupstungum árið 1875, sonur Jóns Bjarnasonar (1844-1926) og Kristrúnar Sæmundsdóttur, frá Helludal (1840-1895), bænda þar.
Ingveldur Sverrisdóttir (1866-1938) var kona Bjarna, dóttir Sverris Magnússonar (1836-1914) og Elsu Dórotheu Einarsdóttur (1839-1905), sem bjuggu á Ytri-Sólheimum í Mýrdal.

Þau Bjarni og Ingveldur reistu bú í Reykjavík. Bjarni lærði trésmíði og vann víða við smíðar. Í Reykjavík byggði hann mörg hús. Eitt þeira var íbúðarhús þeirra hjóna að Njálsgötu 37, sem hann byggði árið 1904. Var það fyrsta hús sem reist var við þá götu og stendur það enn (2015). Þar bjuggu þau Bjarni og Ingveldur til ársins 1918 ásamt feðrum sínum, þeim Sverri Magnússyni og Jóni Bjarnasyni sem báðir voru ekklar. Bjarni hafði verkstæði í skúr á lóðinni.

Árið 1918 seldu þau Bjarni og Ingveldur hús sitt við Njálsgötuna og fluttu að Hvammi í Skorradal. Þau höfðu átt jörðina í einhvern tíma og Ingveldur mun hafa kunnað því betur að búa í sveit en í þjéttbýli. Bjarni mun alltaf hafa haft meiri áhuga á trésmíði en búskap, enda vann hann mjög að smíðum eftir að hann kom að Hvammi. Með þeim fluttu: Jón faðir Bjarna sem og börn þeirra hjóna Jón, Sverrir og Kristrún, en Sverrir faðir Ingveldar var þá fallinn frá. Þetta fólk bjó síðan í Hvammi.

Þegar fjölskyldan flutti upp í Skorradal voru samgöngur dálítið með öðru sniði en tíðkast 2015. Ákveðið var að flytja búslóðina upp í Hvalfjörð með báti. Fólkið var í bátnum en farangurinn á pramma í eftirdragi. Það var því áríðandi að fá gott veður til fararinnar og eftir því var beðið vordagana 1918.Fyrsti áfanginn var að Hrafnseyri í Hvalfirði.

Sumarið áður en þau fluttu hafði Bjarna áskotnast hrútlamb og ær átti hann sem ættuð var sunnan af Miðnesi, jafnan kölluð Sunnanhyrna. Þessi bústofn hafði verið í skúrnum á lóðinni og var að sjálfsögðu fluttur í Skorradalinn.

Í maímánuði rann brottfarardagurinn loks upp og haldið var af stað frá Reykjavík í góðu veðri. Farið var fyrir Kjalarnes og inn Hvalfjörð að Hrafnabjörgum. Þar var gott að leggja að, sandfjara og aðdjúpt. Var nú farangrinum skipað upp og búist til áframhaldandi ferðar. Þangað til móts við hópinn kom bóndi úr Skorradal, Ólafur Þorsteinsson á Vatnsenda. Bjarni hafði ráðið hann til þess að flytja þau heim að Hvammi. Hann skyldi koma með hross til reiðar og undir trúss og flytja þau ásamt því nayðsynlegasta af farangrinum upp í dalinn. Gengið var frá því sem útaf stóð til geymslu þar í fjörunni. Eitthvað var flutt upp að Geitabergi í Svínadal og geymt þar um veturinn. Þar á meðal voru forláta stofuhúsgögn, klædd með rauðu plussi. Þessi húsgögn hafa sennilega verið vönduð smíði því þau eru enn til, nærri öld síðar og í góðu standi eftir því sem best er vitað.

Víkjum nú aftur í fjöruna hjá Hrafnabjörugm þennan vordag í maí. Þaðan var nú haldið af stað. Maður sér fyrir sér þessa lest ferðamanna: Ólafur fór fyrir með trússhestana. Bjarni og Ingveldur og Jón voru ríðandi. Á eftir skokkuðu strákarnir Jón og Sverrir 11 og 10 ára gamlir, ásamt hrútnum og Sunnanhyrnu. Vafalaust hafa þeir verið reiddir af og til eins og systir þeirra, en þeir voru frískir og léttir á fæti.

Áfram þokuðust ferðalangarnir til „fyrirheitna landsins“, upp hallana og yfir í Svínadal, síðan um Geldingadraga að Skorradalsvatni á móti Hvammi. Yfir vatnið var farið á báti en búslóðin var sótt seinna.
Sverrir sagði síðar frá því að hann hafi verið orðinn þreyttur þegar þangað kom og að þar sem hann beið á bakkanum eftir bátnum hafi hann undrast hve stórt þetta vatn væri. Það var þoka eða mistur, þannig að ekki sást báturinn fyrr en hann var nærri kominn. Loks heyrðist þó áraglamm úti í þokunni og báturinn birtist. Áfram var haldið að flytja fjölskylduna og færur hennar yfir vatnið. Hvað tók svo við þar?
Ingvar og fjölskylda hans, sem búið höfðu í Hvammi voru í bæjarhúsunum en fluttu fljótlega burtu. Nýja fjölskyldan varð því að setjast að í fjárhúsunum þegar þau komu, a.m.k. fyrstu nóttina.

Bústofninn var í fyrstu ekki stór: Sunnanhyrna, hrúturinn og ein kú. Víst hefur lífið ekki verið auðvelt: Enginn hestur var til flutninga við aðdrætti. Eina farartækið var pokavagn, sem Bjarni hafði notað í Reykjavík til þess að flytja á smíðavið. Sá var notaður til þess að sækja varning á Seleyri. Einn dró vagninn. Hinir ýttu á eftir. Fyrsti hesturinn sem þau eignuðust var gamall pósthestur, keyptur frá Hamraendum. Það var því aðkallandi að stækka búið og þau settu á öll lömb um haustið, hrútlömb voru alin upp sem sauðir, gimbrarnar sem ær.

Bæjarhúsin í Hvammi voru ekki merkileg, þannig að Bjarni varð fljótlega að byggja yfir fjölskylduna. Hann keypti hús til niðurrifs að Hvítárósi og flutti efnið fram í Hvamm. Líklegast er að það hafi verið dregið á ísi eftir vatninu. Úr þessu efni og öðru tilfallandi byggði Bjarni síðan það hús sem lengi stóð í Hvammi (sjá vatnslitamynd GSG). Þetta var ágætt hús að þeirra tíðar hætti og þokkafullt, enda var Bjarni smiður góður og vanur húsbyggingum frá Reykjavík.

Jón Bjarnason eldri andaðist árið 1926. Hann er grafinn að kórbaki Fitjakirkju. Árið 1924 kom austurrískur ferðamaður að Hvammi. Hafði hann meðferðis myndavél og tók myndir af Jóni þar sem hann sat fyrir bæjardyrum í Hvammi. Á myndinni sjást þær óglöggt, Ingveldur og Kristrún dóttir hennar (sjá mynd). Mynd sem þessi: Af bónda í sínum hversdagsfötum, sem fæddur var á fyrri hluta 19. aldar eru ekki á hverju strái. Ef menn létu taka af sér mynd eða sátu fyrir, eins og það var kallað voru menn yfirleitt í sínu fínasta pússi. Takið sérstaklega eftir vettlingunum!

Bræðurnir Jón og Sverrir gengu í Samvinnuskólann, „fóru til Jónasar“ eins og þá var sagt. Kristrún fór í Kvennaskólann. Ingveldur andaðist í Hvammi árið 1938. Hún var jarðsett við hlið tengdaföður síns í Fitjakirkjugarði. Á leiði þeirra var gróðursettur græðlingur af víðihríslu sem óx utan við bæjardyr í Hvammi. Lifir hríslan enn (2015) á leiðinu í Fitjakirkjugarði.
Bjarni bjó áfram í Hvammi þó börnin væru farin að heiman og konan dáin.

Gunnar Jónsson (Framdalsfélagi), sonarsonur Bjarna og Ingveldar segir svo um afa sinn: „Ég veit að honum leið mjög vel í Hvammi og tók mikilli tryggð við staðinn og það held ég að þau hafi öll gert. Í bréfi föður míns til bróður síns mörgum áratugum síðar stendur: Það er mín skoðun að ég hafi mikið þroskast andlega vegna dvalar minnar í Hvammi. Að því studdi einveran og hið undurfagra umhverfi sem átti fátt sér líkt… Afi var ljúfur og glaðlyndur, gestrisinn dugnaðarmaður. Hann var um hríð oddviti í Skorradalshreppi og lagði mörgum lið með smíðum sínum. Hann var ágætur hagyrðingur og fóru vísur hans víða. Honum þótti vænt um jörðina og Skorradalinn. Þess verður víða vart í kveðskap hans. Við brottförina frá Hvammi orti Bjarni:

Nú skal flytja, breyta um ból
burt frá Hvammi snúa.
Á hann skíni auðnusól,
á alla, sem þar búa.

Þegar eg á hauður hníg,
hvergi lengur talinn,
englavængjum á ég flýg,
yfir Skorradalinn.

Árið 1946 seldi Bjarni jörðina til Hauks Thors, en hafði áður leigt honum hana í einhvern tíma. Haukur leigði síðan Skógrækt ríkisins jörðina, en það er önnur saga…“

(E.s. Þess má geta að Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur er dóttir Gunnars Jónssonar og Bjarni og Ingveldur voru því langafi og –amma hennar).