Birt í Morgunblaðinu 20. desember 2010.
Kristjana Höskuldsdóttir fæddist í Vatnshorni í Skorradal í Borgarfjarðarsýslu 12. júlí árið 1936. Hún lést á Droplaugarstöðum 5. desember síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru hjónin Sólveig Bjarnadóttir húsfreyja, f. 10. ágúst 1905 í Vatnshorni, d. 24 júlí 1979, og Höskuldur Einarsson, bóndi og hreppstjóri í Vatnshorni í Skorradalshreppi, f. 23. nóvember 1906 á Finnstöðum í Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu, d. 11. mars 1981. Systkini hennar eru: Sveinn Skorri, f. 19. apríl 1930, d. 7. september 2002, Sigríður, f. 19. maí 1933, Einar Árni, f. 28. nóvember 1939, og Bjarni Þormar, f. 19. mars 1943, d. 3. desember 1979.
Hinn 8. júní 1957 giftist Kristjana eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Kr. Magnússyni, bónda í Melaleiti í Melasveit í Borgarfjarðarsýslu, f. 2. ágúst 1932. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Eggertsson, bóndi í Melaleiti, f. 2. júní 1899, d. 23. apríl 1993, og Salvör Jörundardóttir ljósmóðir, f. 26. ágúst 1893, d. 28. desember 1988. Börn Kristjönu og Jóns eru: 1) Solveig, f. 4. október 1957, fjölmiðlafræðingur. Maður hennar er Sigurður Á. Þráinsson, f. 1. ágúst 1955, líffræðingur. Sonur þeirra er Eyvindur Árni, f. 11. júlí 1995. Sonur Solveigar frá fyrra hjónabandi er Arnaldur Jón Gunnarsson, f. 10. apríl 1984. Unnusta hans er Hólmfríður Björk Sigurðardóttir, f. 6. október 1985. 2) Salvör, f. 25. desember 1959, skipulagsfræðingur. Maður hennar er Jón Atli Árnason, f. 19. júlí 1959, læknir. Börn þeirra eru Magnús Hallur, f. 5. september 1987, og Una, f. 5. nóvember 1989. 3) Áslaug, f. 31. mars 1963, myndlistarkona og rithöfundur. Maður hennar er Vilhjálmur Svansson, f. 3. apríl 1960, dýralæknir. Dóttir þeirra er Kristjana, f. 5. maí 1993. Dóttir Vilhjálms er Vera, f. 17. júní 1983. 4) Védís, f. 12. febrúar 1965, hönnuður. Maður hennar er Jón Erlingur Jónasson, f. 11. febrúar 1959, líffræðingur. Börn þeirra eru Jón Freysteinn, f. 3. janúar 1995, og Áshildur, f. 27. maí 1998.
Kristjana ólst upp í Vatnshorni í Skorradal. Hún hóf 15 ára að læra á orgel hjá séra Guðmundi Sveinssyni á Hvanneyri, nam orgelleik í Tónskóla Þjóðkirkjunnar í Reykjavík og sótti fjölda námskeiða á vegum skólans. Hún lauk námi í orgelleik frá Tónlistarskóla Akraness. Kristjana var nemandi í Húsmæðraskólanum á Blönduósi veturinn 1956-1957. Kristjana og Jón bjuggu fyrst í félagi við foreldra hans í Melaleiti en tóku síðar við búinu. Kristjana lék í fyrsta sinn á orgel við messu í Fitjakirkju í Skorradal þegar Einar, bróðir hennar, var fermdur og var eftir það organisti við kirkjuna í fjögur ár. Hún var organisti í Leirárkirkju frá 1978 og síðar einnig í Saurbæjarkirkju og í Innra-Hólmskirkju til 2000. Hin síðari ár höfðu Jón og Kristjana aðsetur á Tómasarhaga 40 í Reykjavík. Kristjana var matráðskona kennara í Melaskóla þrjá vetur.
Útför Kristjönu Höskuldsdóttur verður gerð frá Neskirkju í dag, mánudaginn 20. desember 2010, og hefst athöfnin klukkan 11. Jarðsett verður í Fitjakirkjugarði í Skorradal.
Það var gæfa fyrir ungan dreng að alast upp hjá ömmu og afa í sveitinni innan um ær og kýr. Mikil forréttindi. Hvergi vildi hann frekar vera en í Melaleiti. Arnaldur Jón var lengi eina barnabarnið og augasteinn Kristjönu ömmu sinnar sem við kveðjum í dag. Betra atlæti í uppvextinum var ekki hægt að hugsa sér og verður aldrei nógsamlega þakkað. Bjartsýni og lífsgleði Kristjönu í Melaleiti kom öll frá hjartanu eins og sagt er. Hún var ekki með látalæti, kom til dyra eins og hún var klædd, tilgerðarlaus og blátt áfram. Ekkert var henni eðlislægara en að umvefja samferðafólk sitt með jákvæðni og glaðværð – en þó með alvarlegum undirtón. Hyldýpi sorgar og óumflýjanleg örlög höfðu brugðið þunnum hjúp yfir Kristjönu þegar ég kvaddi hana á líknardeild Landakotsspítala fyrir fáeinum vikum. Hún var máttfarin en hlýjan og blikið í dökkum augunum var enn á sínum stað og stundin var dýrmæt við leiftur minninga, enda þótti mér undurvænt um þessa konu.
Mörg augnablik úr eldhúsinu í Melaleiti eru minnisstæð þar sem húsfreyja stendur glaðbeitt með tvær pönnukökupönnur og bakar í gríð og erg ofan í svanga munna sem háma í sig góðgætið um leið og það hverfur af pönnunni. Kristjana fyllir andrúmið glettni og hlýju og ennþá óma í eyrum leiftrandi frásagnir þar sem hlustandinn má hafa sig allan við að fylgja söguþræðinum enda margt sagt á skömmum tíma. Kristjana hafði einstakt lag á því að láta stritið líta út eins og það væri létt verk, var sívinnandi úti sem inni, kvik í spori og dálítið ör, nema þegar hún settist niður við píanóið eða orgelið. Þá færðist svipur hátíðleika yfir andlitið um leið og tónlistin fyllti hug hennar. Þær stundir var hún í öðrum heimi. Nú er hún líka í öðrum heimi. Horfin fólkinu sínu alltof fljótt. Missir þeirra er mikill en minningin er björt og fögur og lifir.
Gunnar Salvarsson.
Þegar við systkinin settumst niður til að minnast ömmu okkar komu okkur fyrst í hug minningar um sumrin í Melaleiti. Við skelltum upp úr hvað eftir annað þegar við rifjuðum upp skemmtileg atvik þar sem lífsglöð kona var í aðalhlutverki.
Þegar við systkinin vorum lítil og gátum ekki sofnað á kvöldin, sagði mamma okkur að hugsa um eitthvað fallegt og það besta sem okkur datt í hug var amma í Melaleiti.
Þegar við vorum að alast upp í Bandaríkjunum hlökkuðum við til allan veturinn að komast heim til Íslands og vera hjá ömmu og afa með Arnaldi frænda í sveitinni. Við erum afar þakklát fyrir sumrin sem við áttum í Melaleiti og án þeirra hefðum við aldrei orðið Íslendingar.
Það var aldrei hljótt þar sem amma var. Hún var mikil félagsvera og hafði gaman af því að grínast og gantast með okkur krökkunum. Hún hló manna mest þegar við vorum að gera einhver prakkarastrik frekar en að skamma okkur. Oft gat hún ekki komið upp orði þegar hláturköstin tóku völdin.
Hún var einstaklega ötul og drífandi kona. Hún kenndi okkur hvernig ganga ætti til allra verka með jákvæðu hugarfari og með dugnað og samviskusemi að leiðarljósi.
Henni fannst fátt verra í fari fólks en leti og ómennska. Hún lét þessar skoðanir sínar óspart í ljós og oftar en ekki með hispurslausu orðavali.
Amma vildi hafa fallega hluti í kringum sig og gladdist yfir fegurð í hinu smáa jafnt sem hinu stóra.
Hún fann til með fólki sem kunni ekki að klæðast öðru en svörtu og gráu, en sjálf sást hún sjaldnast í þeim litum. Því var vel þess virði að reyna að vera í einhverju litríku þegar farið var að hitta hana og hún var líka fljót að veita því athygli.
Um leið og við kveðjum ömmu þökkum við fyrir öll árin sem við áttum með henni og fyrir ómetanlegan vinskap sem myndaðist milli yndislegrar ömmu og barnabarna.
Eftir lifa minningar, hlaðnar hlátri og gleði, um röska, litríka og duglega konu.
Una og Magnús.
Yfir æskudalinn
aftanstjörnur hefjast.
Mánaljómi og minning
mjúkum örmum vefjast.
(Magnús Ásgeirsson)
Fyrir mörgum árum var fastur pistill hér í blaðinu sem hét „Sveitin mín er…“ Dag einn lagði Sveinn Skorri Höskuldsson, bróðir Kristjönu, til hugleiðingar í þennan pistil og skrifaði þá um Skorradalinn: „Tilfinningar mínar til hans eru hluti af sjálfselsku minni – eða eigum við að nota það hátíðlega orð sjálfsvirðingu“ og í lokin segist hann vel geta skilið „þá menn í forneskju sem dóu í fjöll sín. Ég get vel hugsað mér að deyja inn í þennan dal“.
Við kveðjum í dag Kristjönu, systur Sveins Skorra, á þeim tíma ársins þegar sólin stendur kyrr og gerir ekki vart við sig í tvo mánuði neðan við miðjar norðurhlíðar í Fram-Skorradal. Suðurhlíðarnar Vatnshornsmegin mega bíða enn lengur. Æskudalur þeirra systkina frá Vatnshorni sem Sigríður, ein þeirra, kallar gjarnan „græna körfu“, er því kyrrlátur, dimmur og dulur í dag – en tekur á móti þessari dóttur sinni með fyrirheitið „af jörðu skaltu aftur upp rísa“ við hvert fótmál okkar sem fylgjum henni til hinstu hvílu í garði litlu kirkjunnar á Fitjum.
Ég minnist stundar fyrir nokkrum árum. Það angaði af hlýju síðsumri og útrænan gældi við ófallin stráin á eyðijörðum Framdalsins. Þau komu til mín í garðinn, Jón og Kristjana, þá nýlega hætt sínum framúrskarandi búskap í Melaleiti. Svo falleg og prúðbúin hjónin, sem stæði til að messa á Fitjum. Myndi hún setjast við orgelið góða eins og forðum, stíga í það andann og spila sálma um sumardýrð? Kannski Magnús sonur Salvarar stæði hjá ömmu sinni og syngi fagurlega, líkt og langafi hans og fyrrum forsöngvari Fitjakirkju, Höskuldur Einarsson, gerði. Af þeim fimm börnum Sólveigar og Höskuldar sem tifuðu forðum um slegin túnin og afburða vel hirtan bæinn í Vatnshorni lifa nú aðeins Einar og Sigríður.
Tilefni heimsóknar þeirra Jóns og Kristjönu daginn nefnda var ekki messusöngur. Nei, erindið var að velja sér leg í kirkjugarðinum. Jafn fráleitt og það nú var á þeim tíma að þetta fallega fólk gæti nokkurn tímann dáið! Það er sérstök reisn yfir þessari miningu – um fyrirhyggju þeirra, glæsileika, samheldni og skynsemi.
Nú er komið að kveðjustund. Kristjönu verður að þeirri ósk að deyja í æskudalinn sinn. „Mánaljómi og minning mjúkum örmum vefjast“ um hana, hér, nú og ávallt. Megi ástvinir hennar líta til hækkandi sólar og blíðrar birtu morgundagsins.
Af virðingu,
Hulda á Fitjum.
Á björtum ágústmorgni árið 2000 vatt sér inn um dyrnar á Melaskóla myndarleg og hressileg kona.
Hún kvaðst vera nýflutt í Vesturbæinn, þau hjónin hefðu um sumarið brugðið búi á Melaleiti í Melasveit. Sagðist hún hafa séð auglýst eftir kaffiumsjónarkonu við skólann þennan morgun og ákveðið að grennslast nánar fyrir um starfið.
Það skipti engum togum, áður en við kvöddumst höfðum við handsalað samning – og hún var tilbúin að hefja starf strax. Þegar hún hringdi í dætur sínar til að segja þeim tíðindin munu þær vart hafa trúað móður sinni.
En þessi atburður lýsir Kristjönu vel. Hún gekk beint og ákveðið til verks, örugglega bæði í því sem venjubundið var sem og hinu óvænta. Þannig kynntumst við henni.
Í þau ár sem hún var matmóðir okkar lagði hún sig fram um að bera á borð góðan mat og hollan. Allt vann hún með natni og alúð þess er ann góðu verki. Hún var líka einstaklega hreinleg og nákvæm um allt er að starfinu laut, átti jafnvel til að áminna okkur starfsfólkið um góða umgengni.
Kristjana var víðlesin og fróð. Þær voru því ófáar stundirnar sem við áttum saman við spjall þar sem komið var víða við. Glaðleg var hún ævinlega en ákveðin og einstaklega hreinskiptin og sagði umbúðalaust skoðun sína á mönnum og málefnum.
Það lýsir henni líka vel hver afstaða hennar var er í tal barst sá sjúkdómur sem hún hafði glímt við og nú hefur lagt hana að velli. Þá sagðist hún þakka fyrir hvert ár sem hún fengi. Ekkert væri sjálfgefið í þeim efnum.
Við minnumst samskiptanna við Kristjönu með mikilli hlýju, það var gott að eignast hana að vini.
Jóni, dætrunum og fjölskyldum þeirra vottum við innilega samúð.
Karen Tómasdóttir,
Ragna Ólafsdóttir.