Framdalur.is

Framdalur.is er hannaður af Trausta Dagssyni fyrir Fitjasókn, árið 2014.  Markmiðið er að halda til haga upplýsingum um mannlíf og menningarminjar í sókninni. Ábyrgðarmaður er Hulda á Fitjum.

Fitjasókn

„Fitjasókn“ er ævafornt landfræðilegt heiti yfir jarðir í framdal Skorradals, Lundarreykjadals og Grafardal sem áttu sókn eða tíund að gjalda til FItjakirkju. Í elstu máldögum (eignaskrá) kirkjunnar frá því um 1200 á hún nokkrar þessara jarða, en það breyttist í aldanna rás. Um aldamótin 2000 var nærri mannauðn í sókninni, því sóknarjarðirnar fóru í eyði eftir miðja 20. öld og mörg íbúðarhúsanna sem reist voru eftir torfbæina eru nú ýmist illa farin eða horfin. Flest útihús jarðanna eru rústir einar.

Á skilti inni í Fitjakirkjugarði eru upplýsingar um yfir 50 þekkt leiði. Einnig á gardur.is Elst er leiði Björns Jakobssonar d. 1844. Hann bjó á Fitjum og var kvæntur Ragnheiði, dóttur Eggerts prófasts Guðmundssonar í Reykholti og Guðrúar Bogadóttur frá Hrappsey.

Húsin í sókninni

Gunnlaugur Stefán Gíslason, listmálari
Gunnlaugur Stefán Gíslason

Listmálarinn Gunnlaugur Stefán Gíslason (Gulli f. 1944) var fenginn til að mála vatnslitamyndir af öllum 20. aldar íbúðarhúsum í Fitjasókn, auk Fitjakirkju og Pakkhússins í Vatnshorni, elsta húsi í Skorradalshreppi. Myndirnar eru þrettán talsins og voru voru sýndar á Fitjum sumarið 2010. Í sýningarlok gaf Gulli Fitjakirkju myndirnar.

Gulli er sonur Vigdísar Klöru Stefánsdóttur (1909-1999) skáldkonu frá Fitjum og Gísla Sigurðssonar (1903-1985) lögreglumanns í Hafnarfirði (Gísla pól), en Gísli stofnsetti Byggðasafn Hafnarfjarðar í húsi Bjarna Sívertsen. Gulli lærði því snemma að bera virðingu fyrir gömlum hlutum og góðri list. Hann var mörg sumur hjá Karólínu ömmu sinni á Fitjum á 6.áratug 20. aldar og tók ástfóstri við framdalinn.

Yfirsmiðir húsanna

Minningargrein um Brynjólf Guðmundsson smið eftir Svein Skorra Höskuldsson.
Minningargrein um Brynjólf eftir Finnboga Hauk Sigurjónsson.
Minningargrein um Þorbjörg Pétursson smið eftir Sigurjón Guðjónsson.
Grein í tilefni 20 ára starfsafmælis Jóhanns Fr. Kristjánssonar byggingameistara, en hann lagði til teikningar að sumum húsanna.
Grein um Sóló eldavélina sem hönnuð var að Jóhanni Fr. Kristjánssyni. Sóló eldavélarnar voru alger bylting í húshitun.

Gamlar ljósmyndir

Gömlu ljósmyndirnar voru á sýningu á Fitjum árið 2010 og birtar hér með leyfi eigenda, sem eru afkomendur Fitjasóknar.

Jarðabók Borgarfjarðar- og Mýrasýslu

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var gerð á árunum 1702-1714 og má þar finna skrá yfir jarðir og hag Íslendinga. Í útgáfu Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn frá 1980-1990 má finna upplýsingar um jarðir í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu. Textinn um jarðir Fitjasóknar hefur hér verið skrifaður upp og má nálgast hann með því að smella á bæina á kortinu en einnig má lesa hann í heild sinni hér.

Framdalsfélagið

Framdalsfélagið hefur þann tilgang að stuðla að viðhaldi sögu og menningarminja í Fitjasókn í Skorradal. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að efla samtakamátt félagsmanna um þau verkefni sem aðalfundur ákvarðar hverju sinni og með því að halda úti þessari vefsíðu, þar sem miðlað er sögu og ýmsum fróðleik um Fitjasókn.

Lög Framdalsfélagsins.

Heimildir

Árni Magnússon. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 4. bindi. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag/Reykjavík: Sögufélag, 1980-1990.

Jakob Jónsson, Jón G. Guðbjörnsson og Þorsteinn Guðmundsson. Byggðir Borgarfjarðar. 4. bindi. Borgarnes: Búnaðarsamband Borgarfjarðar, 1989-1998.

Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands. http://www.manntal.is.